Arthur B. Reeve

Arthur B. Reeve var bandarískur sakamálahöfundur sem helst er kunnur fyrir sögur sínar af prófessornum Craig Kennedy og félaga hans blaðamanninum Walter Jameson annars vegar og kvenspæjaranum Constance Dunlap hins vegar. Halda margir því fram að Reeve hafi brotið blað í ritun sakamálasagna, einkum með áherslu sinni á að innleiða vísindi og tæknihyggju inn í sögur sínar; þar sé hann í raun fyrirrennari margra seinni tíma höfunda. Var hann mjög vinsæll á sínum tíma beggja vegna Atlantshafsins, í Bandaríkjunum og á Englandi.

Arthur Benjamin Reeve fæddist 15. október 1880, í Patchogue, New York fylki. Hann útskrifaðist úr Háskólanum í Princetown árið 1903 og hóf að því loknu nám við Lagaskólann í New York. Hann starfaði þó aldrei sem lögfræðingur, en menntunin nýttist honum vel þegar hann fór að skrifa sakamálasögur. Fyrstu skrif hans voru þó af öðrum toga en það voru fræðigreinar um vísindi og tækninýjungar fyrir tímarit.

Það var ekki fyrr en árið 1911 að fyrstu skáldsögurnar litu dagsins ljós. Hétu þær The Black Hand og The Deadly Tube. Hlutu þær jákvæð viðbrögð og næsta ár komu svo bækurnar The Poisoned Pen og The Silent Bullet, sem sköpuðu honum fastan hóp aðdáenda. Fyrir utan það að innleiða tækni í meira mæli inn í glæpasögur er Reeve talinn fyrsti höfundurinn sem notar það stílbragð að safna öllum aðilum sögunnar saman í lokin og gera þar uppvíst hver sökudólgurinn sé með því að rekja söguna til hans. Átti þetta eftir að verða sígild úrlausnaraðferð hjá mörgum seinni tíma höfundum og var t.a.m. töluvert notað af Agöthu Christie.

Hélt hann svo áfram að gefa út sakamálasögur, oft margar á ári, fram að andláti, en hann lést 9. ágúst árið 1936.

Eins og áður sagði voru sögur hans um prófessorinn Craig Kennedy og blaðamanninn Walter Jameson með vinsælustu sögum hans, en þeir félagar birtust fyrst í smásagnasafninu The Silent Bullet árið 1912. Má finna þar ákveðna samsvörun við breska spæjarann Sherlock Holmes og félaga hans Watson lækni. Craig Kennedy var í sögunum prófessor í efnafræði við Háskólann í New York, en fékkst í hjáverkum við að leysa flókin sakamál með hyggjuviti sínu og ályktunarhæfileikum. Í viðleitni sinni að leysa hin flóknustu mál hannar hann og býr til alls kyns tæki og tól, sem á þeim tíma er sögurnar voru skrifaðar, þóttu nokkur nýnæmi þó sumt af því mundi þykja nokkuð hversdagslegt í dag á meðan annað á enn eftir að verða að veruleika. Af uppfinningum Kennedys má nefna lygamæli og vél sem getur endurlífgað þá sem eru nýlega látnir. Eins og Watson deilir íbúð með Holmes, deilir blaðamaðurinn Walter Jameson kjörum með Kennedy og kemur sá mikið við sögu. Sögurnar urðu mjög vinsælar og til marks um það voru sjónvarpsþættir gerðir eftir þeim árið 1952.

Constance Dunlap var önnur persóna Reeves sem naut mikilla vinsælda, en sú persóna var nokkuð óvenjulega uppbyggð og samsett ef svo má að orði komast. Við kynnumst Constance fyrst sem eiginkonu bankamanns nokkurs sem kemur heim einn daginn og segir henni að hann hafi stundað fjárdrátt og að nú sé komið að skuldadögum. Manninum að óvörum stappar þá þessi venjulega húsmóðir stálinu í hann og þau ákveða í sameiningu að reyna að fela glæpi mannsins, en til þess þurfa þau að verða enn bíræfnari en maðurinn nokkru sinni hafði verið. Þegar upp um þau kemst fremur maðurinn sjálfsmorð en ferill hennar er þá rétt að hefjast, fyrst sem glæpakvendi og síðan sem spæjari. Er hér á ferðinni forvitnileg persóna sem mætti að ósekju eiga sér stærri sess í heimi ímyndaðra glæpasagnapersóna.

Auk bókanna skrifaði Reeve margar greinar og flutti mörg erindi í útvarpi um glæpi sem segja má að hafi verið hugsað sem nokkurs konar forvarnarerindi. Hann var líka fenginn til að skrifa um hið vel þekkta barnsrán flugkappans Charles Lindberghs fyrir dagblöð. Þá skrifaði hann ásamt öðrum handritið að kvikmyndinni The Master Mystery Movie þar sem Harry Houdini var í aðalhlutverki. Þá var Reeve kallaður til af leyniþjónustu Bandaríkjanna við upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1914 til að hjálpa þeim að skipuleggja aðgerðir gegn njósnum. Var það fyrir tíma FBI.